Hjólakraftur er kannski málið fyrir þig?
Hjólakraftur er félag sem heldur námskeið fyrir ungt fólk á öllum aldri. Fyrstu námskeiðin voru haldin sumarið 2012 af þeim Valda og Eiríki Árnasyni sjúkraþjálfara. Þá var Valdi framkvæmdastjóri hjá stuðningsfélaginu Krafti og þaðan kemur í raun nafnið á félaginu. Hugmyndin var að hitta fyrir fólk sem var að tapa í baráttunni fyrir hinum ýmsu lífstílssjúkdómum. Með góðu samstarfi við Heilsuskólann á LSH urðu til hópar af krökkum sem langaði að taka þátt í að hjóla.
Þeir héldu áfram sumarið 2013, áfram í góðu samstarfi við Heilsuskólann, og það sumar varð til hugmyndin um að fara í WOW-cyclothon árið eftir. Fyrir það var síðan æft vorið 2014, en Eiríkur, eða Eiki eins og hann er jafnan kallaður, gat því miður ekki lengur tekið þátt vegna anna á öðrum vígstöðvum. Áfram verður haldið núna og svo sannarlega er samstarfið við Heilsuskólann áfram frábært, enda ekkert minna en stórkostlegt starf sem þar er unnið. Það sem hefur breyst er það að allir geta haft samband og óskað eftir því að vera með. Það er auðvitað von okkar að ná til sem flestra þeirra sem ekki finna sig í öðrum íþróttum, langar að gera eitthvað en vita ekki hvað eða hvernig, þannig að þeir nái að koma sér af stað.
Þess má geta að Reiðhjólaverslunin Örninn hefur verið afar hjálpleg við okkur í Hjólakrafti og hefur frá upphafi lagt lið með ýmsum hætti, eins og t.d með því að lána hjól þegar á hefur þurft að halda. Án slíks stuðnings væri ansi erfitt að halda svona starfi áfram.
Til þess að segja nú bara satt og rétt frá þessu þá er stuðningur foreldra, ekki bara í hjólreiðum heldur í flestum daglegum umsvifum, gríðarlega mikilvægur. Það þarf stundum að skutla, það þarf að lána öxl til að gráta á, það þarf að hlusta og það þarf kannski að setjast á hjól og taka beinan þátt. Það er einmitt það sem Hjólakraftur þarf á endanum, því þegar kemur að "uppskeruhátíðinni" okkar sem verður auðvitað WOW-cyclothon, þá þurfum við foreldra í liðin, því ekki hafa krakkarnir okkar bílpróf. Foreldrarnir þurfa því að hjóla og keyra - ekki allir, en einhverjir. Það tapar heldur enginn á því að hjóla og hreyfa sig. Kosturinn við hjólreiðarnar, umfram ótal margar íþróttagreinar og hreyfileiðir, er að þar geta ungir og aldnir farið saman og æft sig saman. Eins biðla ég til þeirra foreldra sem eiga börn í hópunum að leggja þeim ekki til óhollt nesti og að sjá til þess að þau komi nærð á staðinn. Eins er í smíðum sérstakur hópur fyrir foreldra - og þangað biðla ég til ykkar að mæta því þannig kemur skilningurinn á því hvað krakkarnir eru að gera . Tímasetningar á þeim hópi verða auglýstar fljótlega.
Ummæli frá þátttakanda:
"Mér fannst ótrúlega gaman að fara hringinn. Það var mun auðveldara en ég bjóst við. Fannst/finnst eiginlega besti parturinn af þessu að vera í liðinu. Upplifi mikinn stuðning og gaman að við séum saman í þessu. Það gerir allt miklu skemmtilegra. Ég ætla 100% að halda áfram að hjóla og langar að fara hringinn aftur á næsta ári."
Hóparnir/þátttakendurnir:
Á Facebook er sérstök síða sem við notum bara fyrir þátttakendur. Sú síða kemur foreldrum og forráðamönnum ekkert við enda þurfa krakkar og unglingar að eiga sitt svæði í friði fyrir þeim.
Hins vegar er sérstök síða fyrir foreldra og forráðamenn. Þar set ég inn upplýsingar um það sem þið þurfið helst að vera meðvituð um og svo framvegis.
Báðar þessar síður eru lokaðar og á þær er hægt að sækja um aðgang.
Copyright Hjólakraftur 2014 © All Rights Reserved